Útgefið efni

Fréttir

20
júní

Kynning á kjarasamningi milli STF og SA

Kjaraml 2Kynning á kjarasamningi milli Samband stjórnendafélaga STF og Samtaka atvinnulífsins SA.

Þann 18. júní s.l. undirritaði Samband stjórnendafélag fyrir hönd aðildarfélaga sinna, kjarasamning við Samtök atvinnulífsins.

Helstu atriði samningsins eru:
• Kjarasamningurinn gildir frá 1. apríl 2019 og til október loka 2022.

Almenn launahækkun er:
• 1. apríl 2019 er kr. 17.000.
• 1. apríl 2020 er kr. 18.000.
• 1. janúar 2021 er kr. 15.750.
• 1. janúar 2022 er kr. 17.250.
• Eingreiðsla kr. 26.000 kemur til útborgunar 1. júní 2019 með orlofsuppbótinni og eftir sömu reglum. 

Pakkalaun: Þeir sem eru með svo kölluð pakkalaun verða að gæta að því að þessi launhækkun er á dagvinnulaun ekki á yfirvinnu og ef þið eruð með í pakkalaunum yfirtíð þá verður að finna út dagvinnulaunin og hækka yfirvinnu til samræmis við hækkun dagvinnulauna í pakkalaununum ( fast launa samningi)

Pakkalaun/föstmánaðarlaun: Þeir sem eru á pakka- eða föstum mánaðarlaunum og taka launabreytingum samkvæmt launavísitölu fá ekki kr. 17.000. launahækkun vegna þess að launavísitalan á að bæta upp þessa launa breytingu þegar fram líða stundir.       (launavísitölu má finna hjá Hagstofu Íslands). Eingreiðsla kr. 26.000 kemur til útborgunar 1. júní 2019 með orlofsuppbótinni og eftir sömu reglum. 

Hagvaxtatengdar launahækkanir
• Á árunum 2020 - 2023 komi til framkvæmda launahækkun að gefinni ákveðinni þróun hagvaxtar á hvern íbúa. Þetta ákvæði nýtist best þeim tekjulægri þar sem þessi hækkun fer af fullum þunga á taxtakaup og 75% á önnur laun. Hagvaxtartengdar launahækkanir koma til áhrifa 1. maí árin 2020, 2021, 2022 og 2023 og byggjast á hagvaxtartölum ársins á undan, reiknuðum af Hagstofu Íslands.


Hækkanir launaliða 
 Orlofsuppbót fyrir hvert orlofsár (1.maí til 30. apríl) miðað við fullt starf er:
o Á orlofsárinu sem hefst 1. maí 2019 verði orlofsuppbót kr. 50.000. 
o Á orlofsárinu sem hefst 1. maí 2020 verði orlofsuppbót kr. 51.000. 
o Á orlofsárinu sem hefst 1. maí 2021 verði orlofsuppbót kr. 52.000. 
o Á orlofsárinu sem hefst 1. maí 2022 verði orlofsuppbót kr. 53.000.

  • Desemberuppbót fyrir hvert almanaksár miðað við fullt starf er:
    o Á árinu 2019 92.000 kr.
    o Á árinu 2020 94.000 kr.
    o Á árinu 2021 96.000 kr.
    o Á árinu 2022 98.000 kr.

Bókun vegna breytinga á kjarasamningum undirmanna.

Samkvæmt gr. 1.8. í kjarasamningi Samband stjórnendafélaga STF og SA eiga stjórnendur/verkstjórar rétt til samningsbundinna fríðinda, sem undirmenn þeirra hafa, svo og samskonar reglur varðandi vinnutíma og önnur kjaraatriði, sem gert er ráð fyrir í kjarasamningi viðkomandi undirmanna efir því við á. Stjórnendur sem ekki hafa mannaforráð taka mið af kjarasamningi skrifstofufólks.

Sveinafélög iðnarðarmanna hafa samið um breytingar á vinnutímareglum o.fl. sem taka gildi 1. apríl 2020. Stjórnendur/verkstjórar sem stjórna að meginhluta til iðnaðarmönnum eiga því rétt til samskonar breytinga frá sama tíma ef þeir óski þess.

Sama gildir um þá vinnutímastyttingu sem VR/LÍV hafa samið um frá 1. janúar 2020 varðandi þá stjórnendur sem ekki hafa mannaforráð, eins og hún er útfærð á vinnustað þeirra.

Framangreindar breytingar í kjarasamningum undirmanna verða útfærðar á hverjum vinnustað í samráði við starfsfólk þ.m.t. stjórnendur/verkstjóra. Óhjákvæmilegt er að þær breytingar á vinnutíma- og öðrum starfskjörum stjórnenda /verkstjóra sem af þessum breytingu hlýst séu útfærðar og staðfestar í ráðningarsamningi þeirra eða með viðauka við ráðningarsamning.

Aðilar munu við útgáfu kjarasamnings aðila fyrir lok nóvember (2019 ss) birta þær samningsgreinar úr framagreindum kjarasamningum sem leiða til breytinga á starfskjörum stjórnenda/verkstjóra í viðauka ásamt kynningarefni.

Breytingar á einstaka greinum kjarasamningsins

Grein 1.1.2. um persónubundin laun orðist svo:

1.1.2. Persónubundin laun Um laun verkstjóra/stjórnanda skal samið sérstaklega í ráðningarsamningi. Umsamin laun verkstjóra/stjórnanda ákvarðast að jafnaði af fjölda þátta eins og ábyrgð fjölda undirmanna, eðli starfs, menntun, starfsreynslu, sbr. bókun aðila um laun verkstjóra/stjórnanda. Eðli máls skv. getur slíkt mat ekki komið fram í einfaldri launatöflu enda aðstæður mismunandi. Sjá bókun um launamyndun verkstjóra/stjórnenda á bls. 50 en þar vísast m.a. um upplýsingar um laun verkstjóra/stjórnenda til launakannana Kjararannsóknarnefndar.

Við ákvörðun launa milli vinnuveitanda og verkstjóra/stjórnanda í ráðningarsamningi, skulu laun endurspegla vinnuframlag, hæfni, menntun s.s. stjórnunarnámi og endurmenntun og færni viðkomandi starfsmanns svo og innihald starfsins og þá ábyrgð sem starfinu fylgir. Gæta skal ákvæða jafnréttislaga við launaákvarðanir.

Starfsmaður skal eiga rétt á viðtali við yfirmann a.m.k. einu sinni á ári um störf sín og hugsanlega breytingu á starfskjörum.

Ný málsgrein bætist við í grein 9.2. sem hljóðar svo:

9.2.1 Greiðsla dagpeninga Óski starfsmaður þess að dagpeningagreiðslur séu greiddar út fyrir upphaf ferðar á að verða við því.

Greinar 10.1. og 10.2. orðist svo:

10.1. Uppsagnarfrestur

Eftir eins mánaðar starf og til loka fyrsta starfsárs hjá sama vinnuveitanda, skal gagnkvæmur uppsagnarfrestur vera 1 mánuður og úr því 3 mánuðir. Uppsögn skal vera skrifleg og miðast við mánaðamót.

Eftir 5 ára starf sem verkstjóri er uppsagnarfrestur 4 mánuðir og 5 mánuðir eftir 10 ára verkstjórnarstarf.

Uppsagnarfrestur á starfi verkstjóra/stjórnanda í félagi innan STF er orðin 6 mánuðir eftir 15 ára verkstjóra/stjórnenda starf hjá sama atvinnurekanda. Uppsögn fastrar yfirvinnu Um uppsögn á fastri yfirvinnu fer eftir persónu bundum uppsagnarfresti verkstjóra/stjórnanda nema sérstök ákvæði heimili skemmri uppsögn á fastri yfirvinnu skv. ákvæðum kjarasamninga undirmanna hans.

10.2. Starfslok vegna lífaldurs

Sé starfsmanni sagt upp, eftir a.m.k. 10 ára samfellt starf hjá sama fyrirtæki, er uppsagnarfrestur 4 mánuðir ef starfsmaður er orðinn 55 ára, 5 mánuðir ef hann er orðinn 60 ára og 6 mánuðir ef hann er orðinn 63 ára. Starfsmaður getur hins vegar sagt upp starfi sínu með 3 mánaða fyrirvara.

Um ónæði vegna síma
• Séu símanúmer starfsmanna gefin upp af hálfu fyrirtækisins skal við launaákvörðun tekið tillit til þeirrar vinnu sem af því hlýst. 

Kynningafundir:
Stuttkynning á kjarasamningi.

Kynningafundir verða ekki haldnir nema að aðildarfélög óski sérstaklega eftir því.

Atkvæðagreiðsla
Atkvæða greiðsla um samninginn fer fram með rafrænum hætti. Aðgengi að atkvæðagreiðslunni er gegnum heimasíðu stf.is. Til þess að kjósa þarftu að hafa rafræn skilríki eða Íslykil. Félagsmenn eru hvattir til að kynna sér samninginn á heimasíðu STF (Samband stjórnendafélaga) og taka þátt í atkvæðagreiðslunni. 


Fyrirtækið AP Media ehf. sér um rafræna kosningu um samninginn. Öll svör vistast í tölvukerfi fyrirtækisins, sem tryggir nafnleynd og að útilokað er að rekja svör til einstaklinga.
Atkvæðagreiðslan hefst mánudaginn 24. júní 2019, kl. 14:00 og mun standa til kl. 14.00 föstudaginn 28. Júní 2019.

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur til þess að tryggja bestu mögulegu upplifun notenda.